top of page

Heimasíða komin í loftið

Updated: Aug 9, 2021

Velkomin/n á nýja heimasíðu fyrir Þróunarfélagið Breið. Á þessari heimasíðu verður að finna gagnlegar upplýsingar um verkefni Þróunarfélagsins, samvinnurýmið, samstarfsaðila og fleira.


Þróunarfélag á Breið

Akraneskaupstaður og Brim stofnuðu formlega nýtt þróunarfélag þann 7. júlí árið 2020. Stofnun félagsins var hluti af vinnu með KPMG ráðgjöf þar sem íbúar og ýmsir hagaðilar tóku einnig þátt. Tilgangur þróunarfélagsins Breið er að stuðla að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Akranesi.

Gert er ráð fyrir áfangaskiptri uppbyggingu til langs tíma þar sem lagt verður upp með uppbyggingu í ferðaþjónustu, heilsu og hátækni. Félaginu er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu og þá er gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið. Brim og Akraneskaupstaður eiga meirihluta lóða og fasteigna á Breið þar sem liggja einstök tækifæri til uppbyggingar. Unnið er út frá því að ávinningur fyrir einn sé ávinningur fyrir alla og markmið þróunarfélagsins er að á breiðinni á Akranesi skapist kvikt og lifandi umhverfi.

Á næstunni verður efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á setrinu auk þess sem opinn dagur verður síðar í sumar þar sem öllum gefst kostur á að skoða húsnæðið. Reynslan sem fæst af verkefninu ætti að geta haft yfirfærslugildi fyrir önnur svæði á landinu sem mörg hver búa við breyttar aðstæður í atvinnuháttum.

Hér að neðan eru ýmsar gagnlegar upplýsingar sem búið er að taka saman:

Stjórn félagsins

Framkvæmdastjóri félagsins er Valdís Fjölnisdóttir og í stjórn sitja Gísli Gíslason stjórnarformaður, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness og Inga Jóna Friðgeirsdóttir fjármálastjóri Brims.

Húsnæði þróunarfélagsins

Húsnæði þróunarfélagsins verður að Bárugötu 8-10. Húsnæðið sem um ræðir hýsti áður húsnæði gömlu bolfiskvinnslunnar og skrifstofur HB&co á Akranesi. Aðstaða þessi mun bjóða upp á lifandi starfsemi og veita innblástur til skapandi lausna þvert á greinar.

Samvinnurými

Samvinnurýmið verður aðlaðandi og lifandi og þar munu skagamenn og aðrir geta stundað fjarvinnu frá vinnustað að hluta eða öllu leyti. Samvinnurými er tilvalið til að aðskilja lífið á milli heimilis og vinnu og hentar vel fyrir þá sem geta ekki búið til aðstöðu heima hjá sér eða vilja vinna í umgengni við annað fólk. Í samvinnurýminu geta skagamenn og aðrir fengið leigt skrifborð eða skrifstofu til að vinna að verkefnum sínum og myndað öflugt tengslanet við aðra sem kjósa að starfa í samvinnurýminu. Í samvinnurýmum skapast oft vettvangur til að vinna með öðrum einstaklingum að ólíkum hugmyndum en samvinnurými auka einnig framleiðni og sköpunargáfu.

Rannsóknar- og nýsköpunarsetur

Eitt af fyrstu verkefnum þróunarfélagsins er að koma á laggirnar rannsóknar- og nýsköpunarsetri en áhersla á rannsóknir og nýsköpun hefur aldrei verið mikilvægari. Staðsetning setursins er nálægt hafinu og þar skapast einstakur vettvangur til að efla grunnrannsóknir, m.a. á umhverfisbreytingum eins og súrnun sjávar. Setrið er í nánu samstarfi við menntastofnanir landsins sem sinna mikilvægu vísindastarfi og öflugum rannsóknum sem munu leiða til og efla nýsköpun.

FabLab smiðja

Stafrænni smiðju (FabLab) verður komið fyrir í húsnæðinu sem gerir frumkvöðlum og nemendum kleift að vinna saman að hönnun og útfærslu hugmynda. FabLab tæki Akraneskaupstaðar sem staðsett hafa verið í Landsbankahúsinu svokölluðu verður flutt og vinnslusvæði smiðjunnar stækkað umtalsvert.




116 views0 comments
bottom of page